Næstu ferðir og fyrirkomulag 2015

Skrá mig á fréttabréf hjá Göngufríi

Já takk! Ég vil fá upplýsingar um nýjar ferðir og tilboð!* = required field

Um gönguferðirnar


Gönguferðir á Spáni eru aðlaðandi kostur fyrir veðurbarða Íslendinga. Í fjöllunum í Valenciafylki er alltaf gott gönguveður, nema á sumrin. Veðrið þar er einna best þegar útivera á Íslandi krefst bæði bjartsýni og góðs skjólfatnaðar. Veðurblíða og fallegt landslag gera svæðið að ákjósanlegum kosti fyrir gönguferðir frá september til maí.

Við ræðum alltaf um hverja gönguferð daginn eða kvöldið áður en þær hefjast, þ.m.t. um brottfaratíma  sem geta verið breytilegir. Suma daga ökum við á upphafsstað göngunnar, en aðra daga göngum við frá gististaðnum.

Gönguferðir okkar taka yfirleitt um 5-6 klst með stoppum. Við hefjum gönguferðir að öllu jöfnu milli 9.00 og 10.00 á morgnana og í sumum tilfellum ökum við á upphafsstað göngu. Algengur komutími úr gönguferð er milli 15.00 og 16.30

Göngurnar eru ekki erfiðar, en það er ekki hægt að segja að þær séu mjög léttar. Upplifun einstaklinga á erfiðleikastigi fer mjög eftir því í hvernig “formi” fólk er.  Það er ekkert klettaklifur en stundum þarf að nota hendur til að styðja sig. Í flestum 2-3 skóa gönguferðum  er nægilegt að vera í góðu “gönguformi” en  3-4 skóa gönguferðir  gera meiri kröfur til  úthalds og getu.

Í göngufríinu er auðvitað hægt að sleppa einni gönguferð eða fleirum ef fólk vill. Það geta verið margar ástæður fyrir slíkum ákvörðunum. Einnig er oft hægt að sitja af sér “hæstu” toppa með því að bíða í rólegheitum og njóta náttúrunnar og útsýnisins meðan aðrir “æða upp á topp”. Oft eru tveir leiðsögumenn og þá er  hægt að skipta hópnum upp eftir getu, þannig að boðið er upp á tvær mismunandi krefjandi göngur.